Þar sem göturnar eru nafnlausar ...

... er uppáhalds U2-lagið, bæði hjá mér og dóttur minni. Hef hana reyndar grunaða um að vera bara að herma, en allavega ...

Myndbandið við lagið góða birtist á Sirkus áðan. Stúlkubarnið reis upp við dogg á sófanum og kallaði á mömmu sína til að við gætum notið dýrðarinnar saman. bono

Ég settist á gólfið fyrir neðan sjónvarpið og pírði augun, full eftirvæntingar (gleymdi gleraugunum mínum í Eystri hrepp um helgina). Það fór um mig sæluhrollur og ég bað barnið að hækka aðeins, sem hún gerði glöð í bragði.

Um miðbik myndbandsins heyri ég, þar sem ég sit andaktug í náttsloppnum á gólfinu fyrir neðan sjónvarpið, að það hnussar í barninu:

"Hvað er málið með hárið"?

Ég hélt mér hefði misheyrst svo ég hváði. Hvað var barnið að tala um? Það er ekkert nema fullkomið hár í þessu bandi! Hárið á Bono er fullkomið! Hárið á Bono er ástæðan fyrir því að ... æji ég get ekki sagt það í beinni útsendingu en hárið á Bono er hafið yfir gagnrýni, sama hvenær, sama hvar. End of story. Barnið endurtók setninguna. 

Ég hugsaði mig um í brot úr sekúntu, átti ég að taka kast og lesa yfir henni allan sannleikann um fegurðina sem felst í síðu, svörtu hári á höfði karlmanns? Neibb, hún er bara ellefu ára og hefur ekkert við þær upplýsingar að gera. Ég ákvað að kafa dýpra. Andaði djúpt og spurði sakleysislega: "Hvað áttu við?"

"Æji bara, hárið á honum er eikkað svo asnalegt".

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Össssss, dissing da master! Er þetta ekkert uppeldi hjá þér kona  

Hittingur sem fyrst

Kv. A 

Anna Lóa (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 20:10

2 identicon

Ehem..... ok hún er bara 11 ára en ef þetta gerist aftur þá verður þú að veita henni tiltal því eins og þú segir þá er ekkert að neinu hári í þessu bandi.

Brettingz (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 08:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband