Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 22. mars 2007
Heimsyfirráð eða mýrarrauði
Þetta er stjörnuspáin okkar Ágústu hinnar í dag:
Vatnsberi: Þig klæjar í fingurna að bjarga heiminum - frið, ást og samhljóm handa öllum, takk! Safnaðu saman fólki sem er á sömu línu. T.d með því að nota síma eða alnetið.
Jæja gamla mín, okkar tími er kominn! Nú förum við og björgum heiminum via sæstrengur! To the skies!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Hátíðahöld og skemmtanir
Það stendur mikið til. Sorellina verður þrítug á laugardaginn og því verður slegið upp stórkostlegri veislu hér í Greninu. Ekki nóg með það heldur ætlar Pie Girl að halda uppá sitt ammli sama kvöld á ónefndu öldurhúsi við Laugaveg. Allt að gerast! Meira um systur mína þrítuga eftir nokkra daga. Ég vil þó segja að það kann að virðast ruglingslegt í augum sumra að ég skuli enn vera 21 árs og systir mín þrítug en jafnframt 14 mánuðum yngri en ég. Þeir sem skilja þetta ekki þurfa greinilega að taka STÆ 703 aftur (og ef þið tókuð ekki þann áfanga þá útskýrir það ýmislegt).
Ég fékk að heyra það nokkrum sinnum á mínum annars ágæta vinnustað í dag að ég væri greinilega orðin kommúnisti. Yfirmaður minn hótaði að reka mig, eins og svo oft áður (hann gerir það t.d. gjarnan ef ég sýni honum ekki tilhlýðilega virðingu þegar Liverpool tapar, sem kemur fyrir) en þar sem hann finnur ekki mötuneytið án minnar aðstoðar þá hætti hann við brottreksturinn þegar hann var orðinn svangur. Ég verð seint vinstrisinnuð, ég mun frekar naga af mér vinstri fótinn við öxl en að kjósa VG eða Samfó. Ég mun skila auðu í kosningunum í vor. Það er hægt að vera fylgjandi hlutleysi, friði og náttúruvernd án þess að vera venstre. Það fækkar bara valkostum í kjörklefanum um ca 100%.
P.S. Kassa: Það eru til sérstakar spjallrásir fyrir fólk sem hélt áfram að fíla Take That eftir að Robbie hætti. Vinsamlegast nýttu þér þær til að lýsa ánægju þinni með það sorglega band.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 19. mars 2007
Tvö mál
Ung var ég Þorsteini Pálssyni gefin. Sautján ára. Sunnlendingar sættu sig ekki við DO sem formann fyrr en löngu síðar. Ef þá. Ég þekki fólk sem heldur að ég sé að grínast þegar ég segist ekki ætla að kjósa íhaldið í vor. Þetta er ekkert grín. Stór hluti af því að verða fullorðinn er að öðlast þroska til að viðurkenna mistök. Ég var t.d. orðin bráðstálpuð þegar ég lærði að biðjast fyrirgefningar. Sjálfstæðisflokkurinn er ennþá 7 ára hvað þetta varðar. Alltaf skulu þeir þræta, með peningana í annarri hendi og flöskuna í hinni. Nei þetta voru ekki mistök, byggt á þeim forsendum sem lágu fyrir á sínum tíma. Andskotans fífl! Fundurinn áðan var flottur, Guðfríður Lilja heldur áfram að skora stig og Helgi Hjörvar kom mér á óvart. Við sem erum af Power Point kynslóðinni hljótum að dást að mönnum sem geta haldið 12 mínútna, vel flutta, innihaldsríka ræðu, blaðalaust. Mér skilst að ég hafi sést í 10-fréttunum á RÚV. Vona að mamma hafi ekki verið að horfa, sagði henni að ég ætlaði í sund, vil síður verða heimilislaus í svona miklu frosti.
Næstbesta drengjaband sögunnar hefur endurgert mesta dramalag í geimi. Flutningur Westlife á Total Eclipse of the Heart eftir Jim Steinman er ekki eins kröftugur og orginal útgáfan með Bonnie Tyler enda tíðarandinn annar í dag og blómatími hinnar hádramatísku powerballöðu að vissu leyti liðinn, þó Íslendingar virðist ekki ætla að átta sig á því fyrr en 10. maí n.k. Hinsvegar þykir mér miður að sjá og heyra að mínir fríðu jafnaldrar frá Írlandi hafa ákveðið að sneiða hina tímalausu Turn around bright eyes-falsettu aftan af laginu, setninguna sem Rory Dodd bakraddasöngvari gerði að mest sungnu laglínu ársins 1983.
Hvert stefnir þessi veröld eiginlega?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 18. mars 2007
Sweet!
Ég vil byrja á að óska Einari Elí bloggvini mínum til hamingju með nýju vinnuna. Flott og gott! I like it!
Margarítukvöld Krabbaklúbbsins er að baki. Eiríkur og Ævar sýndu snilldartakta í matreiðslu og kokteilablöndun. Ég skar sveppina. Strákarnir kenndu mér á rosa sniðuga netsíðu sem heitir Youtube og ég varð heimabæ mínum til skammar að þeirra mati þegar ég spurði yfir matnum hvaða hljómsveit við værum að hlusta á. Það er víst alveg ble að hafa aldrei heyrt minnst á hljómsveitina Beastie Boys og þegar Eiríkur náði andanum aftur sagði hann: Ágústa, þú ert svoooooo tólfti september! Þar höfum við það.
Talandi um hryðjuverk, við Sorellina ætlum að taka Birnu Þórðar á þetta og mæta í Austurbæ annað kvöld. Ég hvet allt rétthugsandi fólk til að gera slíkt hið sama. Og líka ykkur hin.
Dagurinn í dag er einn af þessum ómetanlegu afternoon delight dögum. Sweet!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 14. mars 2007
A cunning plan
Mikið er ég glöð að sjá að aðsóknin inná síðuna mína er hætt að vaxa á lógaritmískum skala og komin aftur í nánast "eðlilegt" horf. Þessi síða var stofnuð með öðru hugarfari en flest önnur moggablogg og átti aldrei að verða neitt annað en hallærislegur brandari. Hún hefur sossum alveg staðið undir væntingum hvað það varðar, sumt af því sem hefur komið útúr þessu brölti mínu hefur svo sannarlega verið bæði brandari og hallærislegt.
Þegar síðan er kominn með yfir 200 innlit á dag þá byrjar maður að upplifa pressu, fer að blogga meira, pælir í hvað maður segir, hvort það sé í lagi að tala um þetta en ekki hitt og svo framvegis. Er í lagi að ég drulli yfir fyrirtækið sem ég vinn hjá og segi frá þybbna sjóaranum með húðflúrið sem starði dreyminn á mig í sundlauginni í hádeginu eða eru bæði sundpungurinn og RW að lesa?
Ef aðsóknin fer að lafa í 50 á dag þá veit ég að hingað líta bara vinir og kunningjar (og einstaka tölvulæst skyldmenni) og get því leyft mér að verða meira sloppy bloggari. Fer jafnvel útí að sleppa því að skrifa í viku, hætta að vera fyndin, segja frá tíðindalausum ferðum í Bónus og Fjarðarkaup, tuða yfir veðrinu og tala um hvað mér finnst kindakæfa góð.
Nei djók. Ég hætti ekkert að vera fyndin. Verð kaldhæðin yet sloppy. That's a nice package.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 12. mars 2007
Dvergar og feitabollur
Þessi pistill er bæði pólitískt rangur og diplómatískt hæpinn. Ég varaði ykkur við.
Hvort er verra að vera lítill karl eða feit kona?
(Það virðist almennt í fínasta lagi að vera feitur karl eða lítil kona.)
Hollywood er trendsetter þegar kemur að pælingunni smart/ekki smart, hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Tók lista yfir óskarsverðlaunahafa síðustu 30 ára (leading role) og greindi sigurvegarana annars vegar niður í dverga/ekki dverga (kk) og hinsvegar feitabollur/ekki feitabollur (kvk). Dvergar eru allir karlar sem eru minni en ég. Feitabollur eru allar konur sem eru feitari en ég (Já, mitt blog, my way!)
Síðan árið 1976 hafa 9 af 30 sigurvegurum í flokkinum Besti leikari í aðalhlutverki verið undir dvergamörkum.
Síðan árið 1976 hefur 1 (ein) kona af 28 sem unnið hafa óskar í flokkinum Besta leikkona í aðalhlutverki verið feitabolla.
Ég er hugsi yfir þessu ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Sunnudagur, 11. mars 2007
Sunday Bloody Sunday
Fór í ammli/átveislu í Dverghamra í gær, always a pleasure. Tók einnig út Tækni og Vit í Fífunni í samvinnu við Brávallagengið og bróbró. Ég er nú ekki mikið tæknibuff en það var fullt af myndarlegum mönnum á sýningunni og ég var í laugardagskjólnum mínum með maskara og gloss svo ég fékk heilmikið útúr þessu.
Besta vinkona mín og sonur minn voru saman á ljósmyndanámskeiði um helgina. Það er ekkert weird.
Mamma fór með okkur á Ölstofuna í gærkvöldi. Það er ekkert weird heldur.
Einar Bárðarson sveitungi minn er í Sjálfstæðu Fólki hjá Jóni Ársæli núna. Einar er einn af fyndnustu mönnum sem ég þekki. Og ég þekki fullt af fyndnum mönnum.
Til dæmis Denny Crane. Við Denny vorum saman í Nam. Einar var ekki í Nam. Báðir fyndnir samt.
Fyndið.
Seppi biður að heilsa.
Bloggar | Breytt 12.3.2007 kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Föstudagur, 9. mars 2007
Skipið
Ég er lasin. Búin að missa af heimsókn til bæði Snúllfríðar Lóru og Óskírðs Ólafssonar af þeim sökum og er ekki skemmt, fyrir nú utan það að veðrið í dag er eins og á vordegi í Prag! Til að bæta gráu ofan á svart vill mamma meina að ég sé bara með sænsku veikina (það er að hennar sögn í lögum í Svíþjóð að þar í landi megi menn taka sér veikindafrí frá vinnu ef þeir eru smá niðurdregnir). Hún vorkennir mér sumsé ekki mikið. Ég treysti því á að aðdáendur mínir og vinir taki vorkunnar-kyndilinn uppúr pollinum sem mamma missti hann í, kveiki í honum aftur og hlaupi með hann spölkorn hver, af því ég elska jú að láta vorkenna mér!
En þetta var útúrdúr. Ég er að lesa Skipið eftir Stefán Mána. Mjög spennandi og skemmtilega skrifuð bók. Ég á samt alltaf í smá vandræðum með nákvæmar lýsingar á ofbeldi, hvort heldur sem er í bókum eða kvikmyndum (spóla t.d. alltaf yfir slaginn milli McClane og hins þýska Karls þegar ég horfi á Die Hard). Það eru þó ekki nákvæmar lýsingar á barsmíðum og pyntingum sem hafa sett mig hvað mest útaf laginu við lestur þessarar bókar. Á bls. 167 er að finna mjög myndræna lýsingu á þeirri ágætu iðju að ganga örna sinna. Ég veit ekki af hverju, því þetta er ekki feimnismál í mínu klani nema síður sé, en ég fór alveg hjákátlega mikið hjá mér við að lesa um hvernig gúllígúllí-ið á persónunni opnaðist og út kom harður drjóli á stærð við bjúga. Ég held, ef einhver hefur efast um það hingað til, að þessi kjánalegu viðbrögð hljóti að vera endaleg staðfesting á því sem ég hef alltaf haldið fram. Ég er blóm.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 8. mars 2007
Smá auðlindapæling
Sniðugt hjá Helga Seljan og félögum að fá Einar Odd í Kastljósið í kvöld til að ræða fyrirliggjandi stjórnarskrárbreytingar. Krassandi að kippa bjargvættinum inn á kantinn, sem virðist ekki hafa komið nálægt vinnu við breytingatillöguna og er aðeins sáttur við eina túlkun en ekki aðra. Eins og við mamma segjum stundum; björgunarþyrlurnar geta líka hrapað.
Ég er sammála Össuri (ekki segja neinum) varðandi vanvirðinguna sem íslensku stjórnarskránni er sýnd með því að vera að hræra í henni kortér í þiðvitiðhvað með það eitt fyrir augum að láta ríkisstjórn sem er í dauðateygjunum hvort eð er tóra fram yfir tólfta maí. Og ég spyr, kæru aðdáendur og vinir, hversvegna lét Íhaldið ekki Framsókn bara gossa? Ég er viss um að helminginn af þingflokkinum klæjaði í puttana að leyfa Sif og félögum standa við stóru orðin og skella á eftir þeim hurðinni. Hvað stoppaði? Jú, það hefði sennilega verið erfitt fyrir Íhaldið að útskýra hvers vegna það er ekki hægt að standa við það sem lofað var í stjórnarsáttmálanum fyrir fjórum árum. Og hversvegna er ekki hægt að standa við það? Jú, kæru aðdáendur og vinir, það hefði gert mjög marga mjög áhrifaríka menn mjög pirraða. Nei, pirraðir er ekki rétta orðið, þeir hefðu setið uppi með hóp af öskuillum, hoppandi vondum kvótakóngum og í aðdraganda kosninga væri það hvað kæru aðdáendur og vinir? Júmm, rétt, afar óheppilegt!
En þetta er nú bara svona nett pæling, ég hef engan áhuga á pólitík og þaðan af síður vit á þeirri skrýtnu tík. Er aðallega að reyna að einbeita mér að því að vera sæt og skemmtileg. Freckles make the world go round ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Fimmtudagur, 8. mars 2007
Kleppur hraðferð?
Það er varla að ég hafi lyst á að skrifa um svona steypu á skemmtilegu og smart bloggsíðunni minni en tyggjóið hrökk ofan í mig þegar ég las þetta. Ég er svo efir meg bet að ég má vart mæla. Ég vona að stúlkukornið sem situr svona líka fín og sæt fyrir í þessum bæklingi sjái þessi skrif aldrei. Og ekki amma hennar heldur.
Hvað er að? Eru ljósin kveikt og enginn heima? ("The eyes are open, the mouth moves, but Mr. Brain has long since departed, hasn't he, Perce?")
Lestin er að fara ... tjú, tjú!
Ég er kjaftstopp. Það gerist ekki oft. Njótið kyrrðarinnar.
Viðbót: Það er sett út á það á hér og þar í bloggheimum að gagnrýni á skrif GHK sé ekki málefnaleg, fólk sé með dónaskap við hana, virði ekki hennar skoðanir o.s.frv. Ég reyni (yfirleitt) eftir fremsta megni að vera kurteisa blómið sem ég var alin upp til að vera. Það er mér bara ómögulegt að gagnrýna þessi skrif kurteislega. Tek Silas á þetta í kvöld og vona að mér verði fyrirgefið í efra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)