Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Afréttarinn
Hugtakið afréttari er vel þekkt í hinum vestræna heimi. Þrátt fyrir að ég hafi að eigin mati staðið mig déskoti vel í glasalyftingum frá 14-28 ára aldurs hef ég alltaf átt í erfiðleikum með áðurnefndan afréttara. Hef varla getað fírað niður einum litlum öl daginn eftir, hvað þá tekið "tvö kvöld í röð" eins og ég sé fólk með óskerta nýrna- og lifrarstarfsemi gera með glans.
Undanfarin 3 ár hefur lítið reynt á þessa fötlun mína þar sem ég hef útúr einskærri neyð kosið að einbeita mér að því að vera bílstjóri og bara illa sofin daginn eftir, en ekki illa sofin, ælandi og vælandi.
Ég stend hinsvegar frammi fyrir því að vera ekki nærri því eins hress og hinar vinkonur mínar, sem eru með eindæmum skemmtilegar, bæði við skál og undir. Ein þeirra vill hjálpa mér með þetta vandamál og tjáði mér nýlega að þessi ofur-djöfullega-þynnka sem kemur í veg fyrir að ég drekki eins og almennileg manneskja sé í raun sálræn en ekki líkamleg. Hennar kenning er að ég sé búin að ákveða að ég þoli ekki vín og hafi í framhaldinu byggt upp mikinn þynnkukvíða (nýyrði?), ég sé í raun að láta heimatilbúna andlega timburmenn koma í veg fyrir mikla skemmtan og almenna gleði.
Þar sem ég er þekkt fyrir að taka allri tilsögn og gagnrýni fagnandi lagðist ég í ítarlega sjálfsskoðun í framhaldinu og kafaði djúpt aftur í frumbernsku til að komast að því hvort þetta gæti verið raunin, hvort ég hefði jafnvel orðið fyrir einhverskonar skaða sem barn sem gæti útskýrt þynnkukvíðann ógurlega. Ég verð að segja að ég hef mínar efasemdir um það því mín fyrsta (og eina) upplifun af timburmönnum úr bernsku er jafnframt ein af mínum kærustu æskuminningum.
Það var haldið ættarmót í föðurfjölskyldunni minni um sumarið þegar ég var 11 ára. Mér stendur það ljóslifandi fyrir hugskotssjónum þegar föðuramma mín, undantekningalaust vel til höfð og snyrtileg kona, staulaðist illa til reika niður stigann frá svefnloftinu í sumarbústaðnum um hádegisbil á laugardeginum.
Amma hafði verið með mjög smart lagningu kvöldið áður en nú minnti brúskurinn á höfðinu frekar á strýið á þvældum flækingshundi.
"Þetta hrúgald getur varla verið hún amma mín" hugsaði ég og að mér setti beyg.
Til að auka enn frekar á skelfingu mína var maskarinn orðinn svo klepraður að augnlokin á ömmu voru að hluta til límd saman eins og á vikugömlum kettlingi og leifar af bláum augnskugga voru normaldreifðar um efri hluta andlitsins.
Ég varð þess áskynja af samtölum fólksins í stofunni að amma var þunn. Ég vissi ekkert hvað það var að vera þunn enda lítið um að fólk skvetti í sig heilu lítrunum af vodka á einu kvöldi heima í Lambhaga 3-5, þar drakk fólk í hófi. Mér skildist af samræðum ömmu við systur sínar og frænkur að henni liði ekki vel.
Frænkurnar hófu þá að halda að ömmu alls kyns góðgæti til að bæta líðan hennar, ristuðu brauði, salati, kleinum, kaffi og buðust jafnvel til að spæla handa henni egg.
"Þá fyrst æli ég" sagði amma döpur.
Mér fannst eins og ekkert gæti fengið ömmu til að taka gleði sína á ný, hún sem var alltaf slíkur og þvílíkur gleðigjafi að undrum þótti sæta. Skyndilega reis ein frænkan upp við dogg (hafði legið á sófanum, sennilega lúin eftir ratleikinn daginn áður) og sagði snaggaralega:
"Eyja, það er bara eitt að gera og þú veist hvað það er! Þú verður að fá þér afréttara!"
"Nei, ég get það ekki" sagði amma aumlega og fól andlitið í höndum sér.
"Jú Eyja", sagði frænkan. "Þú getur ekki verið svona í allan dag, nú blanda ég í glas handa þér, tvöfaldan vodka í kók og þú skellir í þig. Þetta er ekki hægt!"
Mér fannst soldið eins og frænkan væri að reyna að fá óþægan krakka til að taka meðal. Ég vissi samt, þó ég vissi ekki margt, að vodki í kók var ekki meðal.
Frænkan lét veiklulegar mótbárur ömmu sem vind um eyru þjóta og vippaði sér inní eldhús þar sem bæði hálfar og tómar flöskur stóðu frá kvöldinu áður. Ég heyrði hana þvo glas með látum (þau lágu öll óhrein í vaskinum innan um sígarettustubba og nokkrar hálfétnar grillpylsur). Skömmu síðar heyrðist stutt, ókennilegt glúgg-glúgg-glúgg hljóð, þar á eftir freyðandi kóka-kóla hljóð og loks kom frænkan sigri hrósandi útúr eldhúsinu og skellti töfralyfinu á stofuborðið.
Amma sat fölgræn á lit fyrir framan glasið með frænkur sínar og systur til hvorrar handar í sófanum. Hún byrjaði að hrista höfuðið varlega og tuldra:
"Nei stelpur, ég get það ekki, ég æli bara".
"Jú, þú getur það víst" sagði bland-frænkan ákveðin um leið og hún gaf ömmu olnbogaskot.
Amma hélt áfram að malda í móinn og þá tók bland-frænkan til sinna ráða. Hún hóf að kyrja nafn ömmu taktfast og klappa með: "Eyja, Eyja, Eyja", og brátt tóku hinar frænkurnar undir og úr þessu varð hávær kór miðaldra kvenna sem kallaði og klappaði og hvatti ömmu áfram af þvílíkri elju að slíkur kraftur hefur ekki fundist í Grímsnesinu síðan Ketilbjörn hinn gamli drap þrælana sína tvo þar um árið.
Undan þessum dunandi hvatningarópum gaf amma sig. Á meðan nafnið hennar var sungið taktfast við dynjandi lófatak tók hún á sig rögg, greip óaðfinnanlega snyrtri hægri hönd um hið forboðna morgunverðarglas og sturtaði í sig tvöföldum vodka í kók á 7 sek sléttum.
Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna. Ættmenni dreif að úr nærliggjandi bústöðum til að athuga hvað skarkalinn ætti að fyrirstilla og brátt sat amma skælbrosandi og hamingjusöm innan um karla og konur sem klöppuðu henni bakið, hlógu og kölluðu og lýstu ánægju sinni með hörkuna í minni.
Ég tók gleði mína skuldlaust á ný og létti ósegjanlega við að sjá ömmu mína vakna til lífsins. Ég hugsað með mér hvílíkur öndvegis lífselexír þessi vodki í kók hlyti að vera. Ójá.
Mér hefur stundum verið hugsað til þessa gleðidags þegar ég ranka við mér í svipuðu ástandi og amma mín var í þennan sólbjarta sumardag í Grímsnesinu, með verki í hárinu og samanklístruð augu.
Málið er, ég er bara ekki jafn hörð af mér og amma. Öll hvatningaróp í heiminum gætu ekki fengið mig til að fíra niður tvöföldum vodka í kók undir þessum kringumstæðum. Ég myndi bara gera það sem Eyju ömmu tókst að komast hjá í Grímsnesinu sumarið 1987. Æla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Laugardagur, 7. apríl 2007
Road Trip(s?)
Búin að fara í Eystri hrepp og til baka í dag. Er hægt að vera ástfangin af sveit? Það held ég bara, svei mér þá.
Þegar við keyrðum framhjá Fossnesti í bakaleiðinni varð syni mínum litið til vinstri. Hans álit á Samfó-skiltinu sem hangir utan á Inghól er: Djíses, smá klepralegt mar!
Fyrst ég er byrjuð að rúnta er ég að spá í að skella mér á Bakkann núna og vera dræver fyrir Kössu & co á Rauða Húsið og Peiker, svei mér þá, decisions, decisions.
Should I stay or should I go söng Richard Scobie um árið ... Hvað ég gæfi ekki fyrir að upplifa aftur ballið með Loðinni Rottu í Árnesi haustið 1990. Er hægt að verða veik úr nostalgíu? Það held ég bara, svei mér þá.
(Þið sem sjáið tengingu milli Eyrarbakka og umrædds dansleiks eruð beðnar að halda því bara fyrir ykkur.)
Svei mér þá ef þetta ljósmyndanámskeið sem ég splæsti á fyrir lilla strumpus er ekki að skila sér.
Og svei mér þá ef þetta er ekki páskaboðskapurinn í hnotskurn ... (hjálp, hjálp, ég er í hnotskurn!)
Já, góðir hálsar, svei mér þá!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Fimmtudagur, 5. apríl 2007
What's wrong with this picture?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Mánudagur, 2. apríl 2007
This is the inter-galactic operator!
Fólk fætt um og uppúr 1970 hlýtur að fá gæsahúð þegar þetta er skoðað með augum/eyrum ... nema það hafi ekki verið til sjónvarps/útvarpsviðtæki á heimilinu. Gott ef þetta er ekki uppsprettan að áhuga mínum á vísindaskáldskap og vinnuvernd (sé ekki betur en að eiginmaðurinn í myndbandinu sé um það bil að lenda í vinnuslysi).
Ég er annars að kafna í vinnu og hef lítinn tíma til að bulla. Désolé því bull er allra meina bót.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Laugardagur, 31. mars 2007
Leikhúsgagnrýni
Sorellina bauð mér á Draumalandið í Hafnarfjarðarleikhúsinu í vikunni. Það er móðins að hafa skoðun á öllum sköpuðum hlutum er mér tjáð. Því ætla ég að setja fram rýni til gagns á stykkið.
Það er fernt sem ég hef að leiðarljósi þegar ég legg mat á hversu vel heppnuð leiksýning er og ég gef eina stjörnu fyrir hverja kríteríu. Þær eru: hversu sætir leikararnir eru , hversu oft mér leiðist á sýningunni, hversu mörg seleb sækja hana og hvort ég fíla innihald handritsins.
Guðmundur Ingi er alltaf soldið sætur. Enda er hann hljómsveitargæi. Leikarinn sem lék hlutverkið hans Benna Erlings er hinsvegar mjög sætur. Hann mundi ekki alltaf línurnar sínar og ég veit ekki hvað hann heitir enda skiptir það ekki máli. Kudos þar. Hefty fine male verð ég að segja. Ein stjarna.
Mér leiddist einu sinni á sýningunni, stóð mig að því um miðbik eftir hlé að vera farin að láta hugann reika að því hvort ég kæmist í sund í hádeginu daginn eftir eða hvort dagurinn væri orðinn alveg gjörsamlega pakkaður. Sem varð reyndar niðurstaðan án þess að það sé relevant. Hálf stjarna.
Það voru þrjú semi-seleb á sýningunni, Ólína Þorvarðar, Jónatan Garðars og Sveinn Helgason. Fór yfir landsmálin á 7 mínútum með Sveini í hléinu ásamt því að kenna manni sem ég þekki um að ég hafi flosnað uppúr námi. Löng saga. Það var eitt full blown seleb á staðnum. Það var Ólafur Darri. Við Sys settumst að sjálfsögðu við hliðina á honum í salnum því eins og allir vita er selebdómur 15% smitandi ef dvalið er í návígi við full blown seleb. Kudos þar. Samt ekki hægt að tala um stjörnufans. Hálf stjarna.
Sammála innihaldinu, ein stjarna.
Draumalandið er því þriggja stjörnu sýning samkvæmt moi. Gott ef hún þarna eitthvað-Heiða-eitthvað á Fréttablaðinu gaf sýningunni ekki eina stjörnu. Það hefur örugglega vantað alveg selebs á sýninguna sem hún sá. Nei ég segi svona.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 29. mars 2007
Spin-off anyone?
Ég vil byrja á að óska Guðmundi Karli bloggvini mínum til hamingju með nýju vinnuna. Flott og gott! I like it!
Ég verð að segja að ég hlakka mjög til að sýna Kjartani Maack þessa mynd af Sally Spectra í hádeginu á morgun. Það verður unun þegar hann byrjar að ganga um gólf í enga sérstaka átt, halda tölu um óréttlæti heimsins og borða nagladekk í mötuneytinu útí vinnu. Will he be having fries with that?
Ég held að þetta bloggsíðukorn mitt hljóti að bera höfuð og herðar yfir aðrar bloggsíður hvað varðar læknisfræðilega ráðgjafa. Ákalli mínu í síðustu færslu var svarað af ljósmóður, hómópata, hjúkrunarfræðingi og lækni takk fyrir! Ég er að íhuga stofnun spin-off síðu sem myndi fókusera á að svara lesendum sem telja sig ekki fá raunsanna mynd af heilbrigðisstofnunum og læknismeðferð í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. (Þá dettur mér í hug ER-þátturinn þegar konan var í fæðingu og kollurinn var kominn hálfur út þegar Dr. Mark Green heitinn ákvað að ýta barninu inn aftur til að geta tekið það með keisara!) Ætli Ólafía, Ágústa hin, Sif og Jón Þorkell hafi smá tíma aflögu til að sinna slíku þarfaþingi sem slík síða væri ljóslega? One can only hope ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 27. mars 2007
Is there a doctor in the house?
Ég verð að fá að vita þetta!
Stephanie í B&B fékk hjartaáfall (eða e-s konar slag, ég er ekki alveg viss) og liggur intúberuð, en um leið stífmáluð, blásin og greidd, á einkastofu. Af ástæðum sem eru mér ókunnar (hef misst af síðustu 17 þáttum) hefur Stephanie greinilega verið barkaskorin til að koma túbunni fyrir í öndunarveginum. Þessa ályktun dreg ég af því að slangan liggur inn um hálsinn á henni en ekki inn um munninn eins og venja er í Bráðavaktinni (þaðan sem ég hef alla mína læknisfræðilegu sérþekkingu).
Stephanie fékk heimsókn áðan frá tilvonandi fyrrverandi tengdadóttur sinni, Brooke. Eins og allir vita hefur Stephanie svipað álit á Brooke og Jón Steinar hefur á Jóni Ásgeiri enda segir hún Ridge syni sínum reglulega að hann eigi að losa sig við þessa tuðru. Það sem vakti athygli mína og forvitni var ekki samtalið sem þær tilvonandi fyrrverandi tengdamæðgur áttu, enda eru samtöl milli þeirra yfirleitt á svo lágu plani að samræður milli Barney Gumble og Homer Simpson virka eins og eldflaugavísindi í samanburði. Nei, það sem fékk mig til að glenna upp grænar glyrnur var að Stehpanie skyldi getað drullað yfir Brooke með eðlilegri röddu og að því er virtist fremur áreynslulítið, verandi intúberuð gegnum hálsinn með öndunarvélina á fullu trukki.
Þið sem hafði menntun/reynslu á þessu sviði eruð vinsamlegast beðin að segja mér hvort það er í alvörunni mögulegt að tala með slöngu í öndunarveginum, ég get ekki hætt að hugsa um þetta!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Mánudagur, 26. mars 2007
Don't get me wrong ...
... if I'm looking kind of dazzled.
Það sem stóð uppúr í Greninu um helgina var flutningur fimm léttkenndra, miðaldra kvenna á Vorið er komið og grundirnar gróa í kabarett stíl. Það hefur líklega trosnað aðeins uppúr þindinni í mér á meðan svo ég þarf að taka því rólega fram eftir vikunni.
Tommi bloggvinur minn er á Spáni. Ég væri einmanna án hans ef ekki væri fyrir mína eðlislægu innri gleði og ást á lífinu.
Uppskrift að góðum sunnudegi: Vakna án timburmanna, eiga yndislegt morgunverðarstefnumót á Gráa Kettinum, fá sér pönnukökur og tala um skemmtilega hluti. Þetta gerði ég í gær og dagurinn gat ekki orðið annað en góður í kjölfarið, no matter what.
Baldur Þórhalls er með kenningu á bls 6 í Fréttablaðinu í dag. Baldur er fínn strákur. Hef reyndar aldrei hitt hann en ég var gift inní móðurfjölskylduna hans til skamms tíma þegar ég var ung og þetta er undantekningalítið prýðisfólk. Ég skil hann samt ekki alveg. Hann segir að litlu framboðin tvö (F og Í) gætu orðið til þess að núverandi ríkisstjórn haldi velli vegna þess að ef F og Í fá ekki mann kjörinn (lafi undir 5%) þá líti út fyrir að D og B verði með samanlagt meira fylgi en S og V. Ég les útúr þessu að það væri þá s.s. betra (ef maður vill ríkisstjórnina frá) að Í og F væru ekki í framboði. Er þá ekki alveg eins um að gera fyrir andstæðinga ríkisstjórnarinnar að kjósa F og Í þannig að þau nái inn nokkrum mönnum og koma þannig í veg fyrir að B og D nái meirihluta? Pæling ...
(NB: Ég er alls ekki að mælast til þess að fólk kjósi Frjálslynda á þing. Ég er mikill dýravinur og er þess fullviss að Simpönsum líður langbest í sínu náttúrulega umhverfi, ekki í þingsölum.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Laugardagur, 24. mars 2007
24. marz 2007
Litla systir mín er þrítug í dag. Ég tala af reynslu þegar ég segi að þetta verður erfiður dagur fyrir hana. Þreytan og kvíðinn hellist yfir á þessum degi, ásamt vonleysi og endalausum spurningum um tilgang lífsins og hvað bíður manns á efri árum. Ég tala líka af reynslu þegar ég segi að eina færa leiðin til að komast sæmilega frá deginum er að leyfa vinum sínum og fjölskyldu að umvefja sig með ást ... og mörgum pökkum! Það ætlar hún að gera í dag og ég styð þá skynsamlegu ákvörðun heilshugar.
Það er ekki að ástæðulausu að hún er uppáhalds systir mín. Hún brosir alltaf, sama hvernig henni líður. Hún er ein af fáum sjálfstæðum konum á Íslandi sem kann bæði að tala ítölsku og hekla dúka. Hún er börnunum mínum eins og systir og hún keyrir mig alltaf á spítalann þegar ég fæ í nýrun. Hún eldar besta Carbonara í geimi og á alltaf knús. Hún er heillandi, skemmtilegur og yndislegur engill með vonlausan tónlistarsmekk. Hún er rauða akurliljan mín.
Heill þér þrítugri Aðalheiður!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Föstudagur, 23. mars 2007
Love Today
Við klárasta fólkið þörfnumst þess að fá að láta eins og bjánar.
Ég kýs að tjá mig með þessum skilaboðum frá mér og Mika.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)