Afréttarinn

Hugtakið afréttari er vel þekkt í hinum vestræna heimi. Þrátt fyrir að ég hafi að eigin mati staðið mig déskoti vel í glasalyftingum frá 14-28 ára aldurs hef ég alltaf átt í erfiðleikum með áðurnefndan afréttara. Hef varla getað fírað niður einum litlum öl daginn eftir, hvað þá tekið "tvö kvöld í röð" eins og ég sé fólk með óskerta nýrna- og lifrarstarfsemi gera með glans.

Undanfarin 3 ár hefur lítið reynt á þessa fötlun mína þar sem ég hef útúr einskærri neyð kosið að einbeita mér að því að vera bílstjóri og bara illa sofin daginn eftir, en ekki illa sofin, ælandi og vælandi.

Ég stend hinsvegar frammi fyrir því að vera ekki nærri því eins hress og hinar vinkonur mínar, sem eru með eindæmum skemmtilegar, bæði við skál og undir. Ein þeirra vill hjálpa mér með þetta vandamál og tjáði mér nýlega að þessi ofur-djöfullega-þynnka sem kemur í veg fyrir að ég drekki eins og almennileg manneskja sé í raun sálræn en ekki líkamleg. Hennar kenning er að ég sé búin að ákveða að ég þoli ekki vín og hafi í framhaldinu byggt upp mikinn þynnkukvíða (nýyrði?), ég sé í raun að láta heimatilbúna andlega timburmenn koma í veg fyrir mikla skemmtan og almenna gleði.

Þar sem ég er þekkt fyrir að taka allri tilsögn og gagnrýni fagnandi lagðist ég í ítarlega sjálfsskoðun í framhaldinu og kafaði djúpt aftur í frumbernsku til að komast að því hvort þetta gæti verið raunin, hvort ég hefði jafnvel orðið fyrir einhverskonar skaða sem barn sem gæti útskýrt þynnkukvíðann ógurlega. Ég verð að segja að ég hef mínar efasemdir um það því mín fyrsta (og eina) upplifun af timburmönnum úr bernsku er jafnframt ein af mínum kærustu æskuminningum.

Það var haldið ættarmót í föðurfjölskyldunni minni um sumarið þegar ég var 11 ára. Mér stendur það ljóslifandi fyrir hugskotssjónum þegar föðuramma mín, undantekningalaust vel til höfð og snyrtileg kona, staulaðist illa til reika niður stigann frá svefnloftinu í sumarbústaðnum um hádegisbil á laugardeginum.

Amma hafði verið með mjög smart lagningu kvöldið áður en nú minnti brúskurinn á höfðinu frekar á strýið á þvældum flækingshundi.

"Þetta hrúgald getur varla verið hún amma mín" hugsaði ég og að mér setti beyg.

Til að auka enn frekar á skelfingu mína var maskarinn orðinn svo klepraður að augnlokin á ömmu voru að hluta til límd saman eins og á vikugömlum kettlingi og leifar af bláum augnskugga voru normaldreifðar um efri hluta andlitsins.

Ég varð þess áskynja af samtölum fólksins í stofunni að amma var þunn. Ég vissi ekkert hvað það var að vera þunn enda lítið um að fólk skvetti í sig heilu lítrunum af vodka á einu kvöldi heima í Lambhaga 3-5, þar drakk fólk í hófi. Mér skildist af samræðum ömmu við systur sínar og frænkur að henni liði ekki vel.

Frænkurnar hófu þá að halda að ömmu alls kyns góðgæti til að bæta líðan hennar, ristuðu brauði, salati, kleinum, kaffi og buðust jafnvel til að spæla handa henni egg.

"Þá fyrst æli ég" sagði amma döpur.

Mér fannst eins og ekkert gæti fengið ömmu til að taka gleði sína á ný, hún sem var alltaf slíkur og þvílíkur gleðigjafi að undrum þótti sæta. Skyndilega reis ein frænkan upp við dogg (hafði legið á sófanum, sennilega lúin eftir ratleikinn daginn áður) og sagði snaggaralega:

"Eyja, það er bara eitt að gera og þú veist hvað það er! Þú verður að fá þér afréttara!"

"Nei, ég get það ekki" sagði amma aumlega og fól andlitið í höndum sér.

"Jú Eyja", sagði frænkan. "Þú getur ekki verið svona í allan dag, nú blanda ég í glas handa þér, tvöfaldan vodka í kók og þú skellir í þig. Þetta er ekki hægt!"

Mér fannst soldið eins og frænkan væri að reyna að fá óþægan krakka til að taka meðal. Ég vissi samt, þó ég vissi ekki margt, að vodki í kók var ekki meðal.

Frænkan lét veiklulegar mótbárur ömmu sem vind um eyru þjóta og vippaði sér inní eldhús þar sem bæði hálfar og tómar flöskur stóðu frá kvöldinu áður. Ég heyrði hana þvo glas með látum (þau lágu öll óhrein í vaskinum innan um sígarettustubba og nokkrar hálfétnar grillpylsur). Skömmu síðar heyrðist stutt, ókennilegt glúgg-glúgg-glúgg hljóð, þar á eftir freyðandi kóka-kóla hljóð og loks kom frænkan sigri hrósandi útúr eldhúsinu og skellti töfralyfinu á stofuborðið.

Amma sat fölgræn á lit fyrir framan glasið með frænkur sínar og systur til hvorrar handar í sófanum. Hún byrjaði að hrista höfuðið varlega og tuldra:

"Nei stelpur, ég get það ekki, ég æli bara".

"Jú, þú getur það víst" sagði bland-frænkan ákveðin um leið og hún gaf ömmu olnbogaskot.

Amma hélt áfram að malda í móinn og þá tók bland-frænkan til sinna ráða. Hún hóf að kyrja nafn ömmu taktfast og klappa með: "Eyja, Eyja, Eyja", og brátt tóku hinar frænkurnar undir og úr þessu varð hávær kór miðaldra kvenna sem kallaði og klappaði og hvatti ömmu áfram af þvílíkri elju að slíkur kraftur hefur ekki fundist í Grímsnesinu síðan Ketilbjörn hinn gamli drap þrælana sína tvo þar um árið.

Undan þessum dunandi hvatningarópum gaf amma sig. Á meðan nafnið hennar var sungið taktfast við dynjandi lófatak tók hún á sig rögg, greip óaðfinnanlega snyrtri hægri hönd um hið forboðna morgunverðarglas og sturtaði í sig tvöföldum vodka í kók á 7 sek sléttum.

Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna. Ættmenni dreif að úr nærliggjandi bústöðum til að athuga hvað skarkalinn ætti að fyrirstilla og brátt sat amma skælbrosandi og hamingjusöm innan um karla og konur sem klöppuðu henni bakið, hlógu og kölluðu og lýstu ánægju sinni með hörkuna í minni.

Ég tók gleði mína skuldlaust á ný og létti ósegjanlega við að sjá ömmu mína vakna til lífsins. Ég hugsað með mér hvílíkur öndvegis lífselexír þessi vodki í kók hlyti að vera. Ójá.

Mér hefur stundum verið hugsað til þessa gleðidags þegar ég ranka við mér í svipuðu ástandi og amma mín var í þennan sólbjarta sumardag í Grímsnesinu, með verki í hárinu og samanklístruð augu.

Málið er, ég er bara ekki jafn hörð af mér og amma. Öll hvatningaróp í heiminum gætu ekki fengið mig til að fíra niður tvöföldum vodka í kók undir þessum kringumstæðum. Ég myndi bara gera það sem Eyju ömmu tókst að komast hjá í Grímsnesinu sumarið 1987. Æla.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: HP Foss

Endemis rugl er þetta stelpa. Það er bara alls ekki víst að þú sért jafn hress og vinkonur þínar dags daglega, ekki víst að þú verðir jafn skemmtileg og þær þótt þú drekkir heilt baðkar af víni. Ölið á það til að magna andlega líðan fólks, skemmtilegt fólk verður skemmtilegra og leiðinlegt  fólk verður undantekningalaust leiðinlegra. Þannig er nú það, láttu vínið eiga sig, Steini málar gerir það og hann er bæði sætur og skemmtilegur.  Og hananú!

HP Foss, 10.4.2007 kl. 19:02

2 Smámynd: Ágústa Kr Andersen

Oh þú ert svo sniðugur penni. Ég hélt þarna á tímabili að þú ætlaðir að láta söguna enda á því að þú færir að dæmi ömmu sætu. Við fengum þessa gjöf báðar líka, ekki partýlifur og -nýru neitt, þá er bara að láta sem þroskinn og sjálfstjórnin komi í veg fyrir svall, það er mun kúlara.

Ágústa Kr Andersen, 10.4.2007 kl. 19:37

3 identicon

Þynnkukvíði- það er orðið sem ég er búin að vera að leita að! Við erum svo eins.

Hlín (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 20:06

4 identicon

Taka Sessu á það hvað!!!!!

sif síunga (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 20:09

5 identicon

Já ég held það þurfi eitthvað að athuga þetta með Sessuna.... þetta var svakaleg saga. Nú verður bara amma Eyja tekin á það hér eftir

p.s þú ert magnaður penni elskan.

anna panna (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 21:17

6 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Mjög góð saga hjá þér, virkilega góður penni.  Vertu bara edrú áfram, þá áttu ekki á hættu að vakna við hliðina á trölli í ókunnu húsi.

Tómas Þóroddsson, 10.4.2007 kl. 22:59

7 Smámynd: GK

Sammála þér með afréttarann... Hef aldrei komið honum niður... Drekk þess vegna aðeins annan hvern dag...

GK, 11.4.2007 kl. 02:41

8 Smámynd: Sigga Hrönn

það lá við að ég fyndi fyrir þynnku þegar ég las þetta þar sem ég á við sama vandamál að stríða. Gústavsbergið verður minn besti og kærasti vinur og yðulega ligg ég í faðmlögum við það langt fram eftir degi, kalt postulínið getur gert góða hluti þegar maður hreinlega veinar af þynnku. Nú hef ég immit ekki drukkið í mánuð til að geta tekist á við þynnkuna næstkomandi sunnudag. Er ég þá að takast á við þynnkukvíðan?
Þú ert svo jafnhress að þú þarft ekkert að drekka, við komum ekkert með svona góða beinskeitta punkta og þú þegar kk fer í fjörurnar við mann sko. Veit ekki betur en ég liggi yfirleitt í gólfinu af hlátri þegar þú ert edrú og ég full af þú ert svo fyndin og HRESS og gott ef þú pikkaður nú bara ekki einn upp fyrir mig þarna í mánuðinum sem leið lúvyha!!

Sigga Hrönn, 11.4.2007 kl. 07:26

9 Smámynd: Ólafur fannberg

hef sama vandamál með afréttarann

Ólafur fannberg, 11.4.2007 kl. 08:01

10 identicon

Mín reynsla er sú að því oftar sem ég drekk, því betra.  Til að halda þynnkunni í skefjum borgar sig því að drekka um hverja helgi ;)  Ef of langur tími líður þá dettur maður úr æfingu og ferð að æla, væla og skæla...

Ekkert smá fyndin og vel skrifuð saga hjá þér :)

Soffía (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 21:44

11 identicon

Við Siggi erum sammála um að "góður penni" sé brjálæðislega ofnotað þótt það eigi vissulega við um þessa færslu. Annars þarf ég að fá smá manipuleringaráð hjá þér bráðum. Og hvenær eigum við að fara á Epli og eikur? Kallar kannski á spjall á morgun mín kæra.

Íris (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 00:01

12 identicon

Merkilegt er það hvað minni okkar virka á ólíka hluti kæra systir, ég man eftir hvorki fyllirýi né þynnsku hvað þá einhverjum hvatningakór gamalla frænkna! Mig rámar eitthvað í ratleikinn en það eina sem ég man almennilega eftir er að hafa setið í neðri kojunni og spilað sjöu við rauðhærða jafnaldra frænku úr the Westman Islands ... sem for the love of me ég get ekki munað nafnið á. En þetta var svo skemmtilegt ættarmót að ég man hvað mig langaði að fara á annað ... stóð ekki alltaf til að halda eitt á 5 ára fresti?
Kveðja úr Stórborginni,
Litla systir

Sorellina (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 04:02

13 identicon

Heyrðu..ég var að spá. Ef þú ert hætt að reykja, drekkur ekki, borðar varla súkkulaði. Hvert er þá þitt eitur? Þeir vita það kannski sem þekkja þig betur. Eða þekkja þig full stop.

Hlín (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 11:58

14 Smámynd: Rúnarsdóttir

Takk, þið eruð allt of góð við mig

Rúnarsdóttir, 14.4.2007 kl. 00:58

15 identicon

Segir ekki reglan að summa lastanna sé ávallt sú sama?  Þeir sem eru hættir að drekka, reykja og éta súkkulaði hljóta því að ríða og slást þess mun meira. Annars er þetta lengsta (en alls ekki sísta) þynnkusaga sem ég hef á ævinni séð!

Fred Will (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband