Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Öskudagur
Öskudagur er yndislegur. Af þessum þremur hátíðisdögum, bollu- sprengi- og ösku, ber öskudagur höfuð og herðar yfir hina tvo hvað varðar skemmtilegheit og tilhlökkun að mínu mati. Ég er, eins og alþjóð veit, ekki mikil matkona svo rjómabollur og saltkjöt hafa takmarkað aðdráttarafl. Í annan stað hefur ofbeldið sem fylgir bolludeginum (bolluvendir anyone?) gert mig frekar fráhverfa þeim degi. Í þriðja lagi minna orðin sprengidagur og "saltkjöt" mig á heimagerðu sprengjuna sem sprakk á almenningabókasafninu í Salt Lake City í fyrra, sem aftur ýtir undir vonleysi og neikvæðni hjá viðkvæmum blómum eins og moi.
Á öskudag kveður við nýjan tón. Hátíðin hefst raunar eftir vinnu á sprengidag þegar ég fer í Leikbæ, úthvíld eftir notalegan vinnudag, og reyni að hjálpa ungviðinu að finna búning við sitt hæfi. Í Leikbæ eru yfirleitt 15-20 aðrir foreldrar plús eitt til þrjú börn á mann í sömu erindagjörðum. Þarna getur oft myndast notaleg tilhlökkunarstemmning og fólk stendur og spjallar í rólegheitum í röðinni sem nær út að hurð. Samkenndin fyllir mig bjartsýni.
Öskudagurinn sjálfur er svo mini-febrúarútgáfa af jólunum, svo skemmtilegur er hann. Ég vakna úthvíld og endurnærð og hjálpa ungviðinu að búa sig fyrir daginn, mála þau í framan og sendi þau út af örkinni með alla heimatilbúnu öskupokana sem ég hef dundað mér við að sauma yfir dimmustu vetrarmánuðina, gjarnan við kertaljós. Börnin hlaupa glöð til móts við félaga sína og eyða deginum við leik og söng sem gleður alla bæjarbúa. Hátíðarbragurinn sem myndast meðal gjaldkeranna í bankanum, þegar þær eru búnar að taka á móti sautján sönghópum fyrir kl 10:30, er ólýsanlegur og gleðin smitast yfir á fullorðna viðskiptavini sem bíða brosandi og þolinmóðir eftir afgreiðslu á meðan börnin syngja skemmtilega söngva við raust. Eftir vinnu sameinast fjölskyldan á ný og fer yfir atburði dagsins, börnin róleg og vær eftir daginn enda sameinar öskudagurinn holla útiveru í hreinu lofti og staðgóða næringu, allt sem ungviðið þarf á að halda. Um kvöldið baða ég þau og hreinsa framan úr þeim andlitsmálninguna með mildri sápu sem ertir ekki viðkvæma húð, þau busla í hreinu baðvatninu og hjalið í þeim þegar milda sápan kitlar augun minnir mig á hvað ég er ótrúlega heppin í lífinu.
Ég vildi að allir dagar væru öskudagar!
Athugasemdir
Muahhahahha..... Ég er frekar leið yfir því að hafa farið á mis við þetta allt saman þar sem yndisleg börnin eiga frekar erfitt með að komast hingað á svæðið.
Sigga Hrönn, 22.2.2007 kl. 11:03
!!!
Víkingur / Víxill, 22.2.2007 kl. 11:41
ógó fyndin
Sigurður Rúnar (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 12:23
Jæjaha. Mín bara í Stepford gírnum í dag. Sé þig alveg í anda í fallega pastellitaða peysusettinu svífandi um á háu hælunum, ljómandi af hógværri gleði yfir hlutskipti þínu. (Þú myndir kannski deila þessu tilraunalyfi með gamalli vinkonu??) -love, Ágústa.
Ágústa And (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 17:29
Í annan stað merkir hinsvegar.
HP Foss, 22.2.2007 kl. 21:28
Síðuskrifari þakkar Guðna Kolbeinssyni í gervi bóndasonar úr Skaftárhreppi fyrir ábendinguna
Ágústa R. (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 21:46
Hehhehe! Heyrðu vinkona, er fyrst að fatta þetta dámsamlega blogg þitt núna, það ljós í amstri dagsins. Kv Gugga
Gugga (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 14:02
Jea, right! Er þetta ekki bara á gullaldaríslensku ? Og líka doldið væmið fyrir minn smekk, aþþí það er ekki líkt þér.
Abraham, 23.2.2007 kl. 19:55
Það jaðrar við að maður skynji örlítinn vott af kaldhæðni... ;)
GK, 23.2.2007 kl. 22:34
Ha Ágústa, hún er aldrei kaldhæðin!!!
sif síunga (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 14:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.