Og restin í hárið ...

Frumsamið atómljóð eftir sjálfa mig: atom

 

Ég hata áhættugreiningar.

Þessi færsla hefur aldrei verið vistuð.

Ég hata áhættugreiningar.

Ég hata áhættugreiningar.

 

Vil benda lesendum á hörkuleik í toppslag Sunnlensku deildarinnar. Ég hvet landslýð til að fjölmenna í Árnes annað kvöld og sjá Ungmennafélag Gnúpverja taka á móti Bjórvömb frá Hveragerði. Þetta verður hörkuleikur, UMFG hefur allt að vinna og mjög miklu að tapa, engin pressa samt. Fyrir þyrsta verður sjoppan opin til kl 21 og svo tekur barinn hjá Begga við. Ég kemst því miður ekki sjálf, verð með matarboð fyrir þrjú gnúpversk heiðursgamalmenni og aldraða móðursystur mína.

Alfa Romeo out. 


Vondur málstaður eða heimskir menn?

hvammur_yfirlit_litilSíðastliðið föstudagskvöld kom hópur fólks saman á mótum Þverár og Þjórsár í Gnúpverjahreppi. Tilgangurinn með samkomunni var að afhjúpa skilti tvö sem eiga að sýna fyrirhugaða hæð svokallaðs Hagalóns sem verður myndað á þessu svæði ef Hvammsvirkjun verður að veruleika. Samkoman var falleg og friðsamleg, Guðfinnur í Skaftholti spilaði á harmonikku og gestir fengu kakó og kaffi af brúsa. Ég fékk að standa undir regnhlífinni hjá prestinum og þetta var gott og skemmtilegt.

Ég fór tvær ferðir inní Þjórsárdal um helgina, í sitthvorum félagsskapnum, og útskýrði tilveru þessara skilta fyrir gestunum þegar við ókum hjá. Viðbrögðin voru svipuð í báðum tilfellum: Allt þetta undir vatn? Er ekki í lagi?

Í gærkvöldi eða nótt sannaðist svo endanlega að það er ekki allt í lagi. Einhver eða einhverjir hafa gert sér ferð inn að Þverárbrú, tekið niður skiltin og fleygt þeim inná hlað í Geldingaholti, en þar býr fólk sem er þekkt fyrir vinnu að umhverfismálum. 

Menn sem athafna sig þegjandi í skjóli nætur hljóta að hafa vondan málstað að verja. Eða þeir eru hreinlega of heimskir til að geta staðið fyrir máli sínu. Nema hvort tveggja sé. 


Ya think?

Það er búið að ráða mjög frambærilegan einstakling í stöðu framkvæmdastjóra Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. Hún var valin úr hópi liðlega 50 umsækjenda. Flott hjá henni.

Hún lætur hafa þetta eftir sér í mogganum í dag: 

"Ég ætla að vona að ég hafi ekki verið ráðin bara vegna þess að ég er búin þeim góða kosti að vera kona".

DÖ!

 


Þar sem göturnar eru nafnlausar ...

... er uppáhalds U2-lagið, bæði hjá mér og dóttur minni. Hef hana reyndar grunaða um að vera bara að herma, en allavega ...

Myndbandið við lagið góða birtist á Sirkus áðan. Stúlkubarnið reis upp við dogg á sófanum og kallaði á mömmu sína til að við gætum notið dýrðarinnar saman. bono

Ég settist á gólfið fyrir neðan sjónvarpið og pírði augun, full eftirvæntingar (gleymdi gleraugunum mínum í Eystri hrepp um helgina). Það fór um mig sæluhrollur og ég bað barnið að hækka aðeins, sem hún gerði glöð í bragði.

Um miðbik myndbandsins heyri ég, þar sem ég sit andaktug í náttsloppnum á gólfinu fyrir neðan sjónvarpið, að það hnussar í barninu:

"Hvað er málið með hárið"?

Ég hélt mér hefði misheyrst svo ég hváði. Hvað var barnið að tala um? Það er ekkert nema fullkomið hár í þessu bandi! Hárið á Bono er fullkomið! Hárið á Bono er ástæðan fyrir því að ... æji ég get ekki sagt það í beinni útsendingu en hárið á Bono er hafið yfir gagnrýni, sama hvenær, sama hvar. End of story. Barnið endurtók setninguna. 

Ég hugsaði mig um í brot úr sekúntu, átti ég að taka kast og lesa yfir henni allan sannleikann um fegurðina sem felst í síðu, svörtu hári á höfði karlmanns? Neibb, hún er bara ellefu ára og hefur ekkert við þær upplýsingar að gera. Ég ákvað að kafa dýpra. Andaði djúpt og spurði sakleysislega: "Hvað áttu við?"

"Æji bara, hárið á honum er eikkað svo asnalegt".

 


Klukk

Einar Elí hefur klukkað vort freknótta fés. Mér hefur alltaf þótt þáttaka í svona barnalegum leikjum fyrir neðan mína virðingu en þar sem téður EE er í sérstöku blogg-uppáhaldi hjá mér og ég þess utan að reyna að vera betri (auðmjúkari ... mýkri?) manneskja þá tek ég þessari áskorun með bros á vör og sól í hjarta. Ég mun hér að neðan fylgja fordæmi EE og bjóða uppá fjórar alkunnar staðreyndir um moi og fjórar lítt þekktar ... að ég tel. Þær eru ekki í neinni sérstakri röð.

Ég er félagslyndur einfari.

Mér finnst rigningin góð.

Ég elska.

Ég er matarfíkill.

Ég er í grunninn mjög latur einstaklingur með mikla hreyfiþörf. Það getur farið illa saman.

Þegar fólk er á annað borð komið út í kuldann hjá mér þá getur það, með örfáum þekktum undantekningum, gleymt því að koma inn aftur.

Ég er lofthrædd.

Ég trúi á Guð, finnst gott að fara í kirkju og hef yndi af sálmasöng.


Þú mátt kalla mig Alla

Maður gengur niður götuna

Hann segir: Hví er ég mjúkur í miðjunni?

Hví er ég mjúkur í miðjunni?

Að öðru leyti er líf mitt svo hart

Ég þarf mynda-tækifæri

Ég þarf tilraun til endurlausnar

Vil ekki enda sem teiknimynd

Í teiknimyndakirkjugarði

Beinagrafari Beinagrafari

Hundar í tunglsljósinu

Langt í burtu mínar vel upplýstu dyr

Herra Bjórvömb Bjórvömb

Komdu þessu rökkum í burtu frá mér

Þú veist að mér finnst þetta ekki skemmtilegt lengur

 

Ef þú vilt verða lífvörðurinn minn

Þá skal ég vera þinn löngu týndi félagi

Ég get kallað þig Bettí

Og Bettí, þegar þú hringir í mig

Máttu kalla mig Alla

 

Maður gengur niður götuna

Hann segir: Hví hef ég of litla athygli

Hef stutt lítið athyglissvið

Og mínar eru næturnar langar

Hvar eru konan mín og börnin?

Hvað ef ég dey hér?

Hver verður fyrirmynd mín?

Nú þegar fyrirmynd mín er

Farin farin

Hann stökk aftur niður sundið

Með einhverri þybbinni lítilli leðublökufés-stelpu

Alveg aleinn aleinn

Það voru tilvik og tilviljanir

Það voru vísbendingar og staðhæfingar

 

Ef þú vilt verða lífvörðurinn minn

Þá skal ég vera þinn löngu týndi félagi

Ég get kallað þig Bettí

Og Bettí, þegar þú hringir í mig

Máttu kalla mig Alla

 

Maður gengur niður götuna

Það er gata í skrýtnum heimi

Kannski er það þriðji heimurinn

Kannski er hann þar í fyrsta sinn

Hann talar ekki tungumálið

Hann er ekki með gjaldeyri

Hann er erlendur maður

Hann er umvafinn hljóðinu

Hljóðinu

Nautgripir á markaðinum

Flækingar og munaðarleysingjahæli

Hann lítur um kring um kring

Hann sér engla í hönnuninni

Snúast í óendanleika

Hann segir Amen! Og Hallelúja!

 

Ef þú vilt verða lífvörðurinn minn

Þá skal ég vera þinn löngu týndi félagi

Ég get kallað þig Bettí

Og Bettí, þegar þú hringir í mig

Máttu kalla mig Alla


Gott

... mér finnst svo gott þegar það fer að rökkva aftur yfir blánóttina í júlí. Þá bestnar lífið og bestnar og nær hámarki annan föstudag í september. Eftir það verður lífið aftur ponkulítið verra en bestnar og bestnar þegar nær dregur jólum og nær hámarki á jóladag kl 14:17. Eftir það verður lífið aftur ponkulítið verra þangað til það fer að verða bjart á kvöldin seinnipartinn í mars. Þá bestnar það og bestnar og nær hámarki við sumarsólstöður því þá er svo bjart og gott og kyrrt og fallegt. Svo verður lífið ponkulítið verra en ... sjá efst ...

 


Goodbyeee

Gott í bili.


Förðun og forsetinn

IMG_3144Ég ætla að plögg hana Ólafíu vinkonu mína aðeins. Hún tekur að sér að farða konur (og menn) fyrir hin ýmsustu tækifæri og er algjör snillingur með burstann. Látið mig vita ef þið viljið komast í samband við hana. Förðunarfræðingur sem getur látið gamla þreytta konu eins og mig líta út eins og Ólafíu tókst í gær (sjá mynd) hlýtur að vera pretty darn good at what she does!

Fyrsta frétt á báðum sjónvarpsstöðum í kvöld var um "veikindi" sem forsetinn fann skyndilega fyrir vestur á Snæfellsnesi þegar hann vaknaði í morgun. Næst þegar ég vakna þreytt eftir veisluhöld kvöldið áður ætla ég að prófa að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar og sjá hvort þeir eru ekki til í að skutla mér á spítala. Ég væri alveg til að taka þynnkuna út með eitthvað gott í æð og notalegar hjúkkur við rúmstokkinn.

Það er ekki öll vitleysan eins. 


That's not a bomb, sir, that's a sponge

Blogg tvo daga í röð. Vona að Bóbó fái ekki flog.

Við unglingurinn erum að passa fyrir Lufsu og Doktorinn, litla barnið er sofnað, hraunbitarnir komnir í skál, Borat undir geislanum og ég hef því ekkert annað að gera en að setja hugrenningar mínar á "blað". 

Ég er komin með kosningaógeð! Sko óóóóóógeð! Ég er nánast hætt að horfa á sjónvarp, hætt að hlusta á fréttirnar á Rás 1 á leið í vinnuna og hætt að lesa blogg hjá fólki sem talar um pólitík (nema Tomma en það telst ekki með). Ég veit ekki ennþá hvað ég á að kjósa, ef nokkuð, en hallærislegar sjálfshólsræður frá misgáfulegu en óaðfinnanlega stíliseruðu fólki eru ekki að hjálpa mér neitt. Mér finnst þetta allt bara eiginlega einn, stór, rándýr skrípaleikur. Allar stefnuskrár keimlíkar, allar áherslur eins, með einstaka útúrdúrum, allar ræðurnar svipað sápukenndar en samt halda því allir fram að ef ég kýs andstæðinginn muni þjóðfélagið fara beint til andskotans á 25 sek sléttum.clown

Á kosningakvöldið ætla ég að grilla með afa mínum á Selfossi, horfa á klæðskiptingana í Helsinki (því það veit Guð að ekki verður Eiríkur Hauksson þar) og ganga svo á milli kosningaskrifstofa í trúðabúningi til að leggja áherslu á þá skoðun mína að kosningabaráttan er ekkert nema sirkus. Frjálslyndir eru simpansarnir, Sjallarnir eru skeggjaða konan, Samfó er fólkið sem leikur listir standandi á hestbaki og VG er loftfimleikamaðurinn sem missir flugið og dettur í netið. Framsókn situr fótbrotin í hjólhýsinu sínu með gifs uppí nára og Íslandshreyfingin leikur á lútu við innganginn.

(Almáttugur, er ég að breytast í anarkista? Verð ég orðin Gústa Pönk eftir viku? Mig hefur reyndar alltaf langað í hjúkrunarfræði ... )

Ég verð í lokin að minnast aðeins á uppáhalds veðurfréttakonuna mína. Hún var í sjónvarpinu áðan, alltaf fær hún mig til að staldra við og dást að kraftinum og örygginu sem bókstaflega geislar af henni á skjánum, fyrir nú utan það hvað hún er sæt, það eitt og sér er efni í sjónvarpsþátt. Já, ég veit þetta er væmið en ég er jú blóm. Haltu áfram að standa þig svona vel Voffía!

Og alveg í blálokin er hér mynd sem unglingurinn tók á kvöldgöngu í ljósaskiptunum með Húna hundi. Ef þið skoðið hvað myndar gárurnar á vatninu sést hvar Húni læðir sér útí sjó. Mér finnst þetta flott mynd.

Picture 035     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband